Þriðja spurningin viktar þungt - gerir útkomuna marktækari

Það er þekkt staðreynd úr könnunum á Íslandi að fylgi við Sjálfstæðisflokkinn er ívið meira mælt en þegar talið er úr kjörkössunum. Til að minnka þessa skekkju er mikilvægt að spyrja óákveðna dýpri spurninga. Þetta gerir Capacent Gallup með tveimur spurningum.

Sú fyrri aukapurningin er fólgin í að spyrja viðkomandi hvað hann eða hún telji líklegt þó óákveðin(n) sé. Þriðja spurningin er svo spurð ef ekkert er gefið upp líklegt og er hún um hvort viðkomandi telji sig hallast að Sjálfstæðisflokknum eða öðrum. Tölfræðilega er þetta rökrétt framhald, enda er vafafylgi oftar að skiptast milli hinna framboðanna, auk þess sem það er góð mengjafræði að taka frá stærsta mengið og aðgreina það í svona flokkun. Þetta gefur spyrjandanum tækifæri á að taka eldri módel þar sem fylgi hinna framboðanna er notað sem skapalón á það sem ekki fer til Sjálfstæðisflokks. Þannig sést betur til botns, en þegar óákveðnir eru margir skiptir þetta mjög miklu máli til að fá réttari mælingu.

Þessi aðferðarfræði er því marktækari en ella og má því ætla að Sjálfstæðisflokkurinn sé í stórsókn í Reykjavík. Í síðustu kosningum átti flokkurinn annan fyrsta þingmanninn, en nú er þessu öðru vísi farið. Flokkurinn er með yfirburðafylgi í borginni á ný.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur bætir við sig þingmanni í Reykjavík suður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir á mölina?

Jónas Kristjánsson vill senda restina af landsbyggðinni "á mölina", enda "haldist fólk ekki við í plássum án þess að væla um skort á álveri, olíuhreinsunarstöð, háskóla og svo framvegis,"

Sennilega hefði verið "ódýrast og hagkvæmast" - svo notuð séu orð Jónasar - að senda Íslendinga alla úr landi fyrir nokkrum öldum eins og sumir Danir vildu gera.

Hér er svo pistill Jónasar eins og hann var birtur á www.jonas.is í fyrradag: 

Allir á mölina
Íslendingar eiga að búa á höfuðborgarsvæðinu. Það er ódýrast og hagkvæmast. Við þurfum ekki lengur verstöðvar við ströndina. Fiskurinn er verkaður um borð eða settur á fiskmarkaði við Faxaflóa. Það er dauðadómur yfir stofnun að senda hana út á land, samanber Byggðastofnun á Króknum og Landmælingar á Akranesi. Ekkert vit er í að hafa háskóla úti um allar trissur. Þar myndast ekki akademískt andrúmsloft. Enda helzt fólk ekki við í plássum án þess að væla um skort á álveri, olíuhreinsistöð, háskóla og svo framvegis, allt á kostnað ríkisins. Ódýrara er að flytja fólkið suður. Hér er nóg pláss fyrir alla.


Kjósendur VG og S vilja lægri skatta -

Tekjuskattur á Íslandi hefur lækkað, en er enn of hár að mati mikils meirihluta þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur beinlínis boðað skattalækkanir og er þessi könnun athyglisverð í ljósi þess breiða stuðnings sem skattalækkanir virðast hafa á Íslandi í dag.

Kjósendur allra flokka sem taka undir þetta og vekur sérstaka athygli að kjósendur stjórnarandstöðuflokkanna eru á því að skatturinn sé of hár, en þessir flokkar boða ekki lækkun tekjuskatts.  Hvorki meira né minna en 72,3% kjósenda Samfylkingarinnar og 64,9% kjósenda Vinstri grænna.

Sagan segir að frumbyggjar Íslands hafi komið frá Noregi til að forðast óhóflega skattheimtu.
Okkur er kannski í blóð borið að vilja lægri skatta?


mbl.is Mikill meirihluti segir 35,72% tekjuskatt of háan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2 leikrit eftir Cho Seung-Hui

Hér eru tvö leikrit eftir fjöldamorðingjann Cho Seung-Hui sem Ian MacFarlane fyrrum skólafélagi hans og starfsmaður AOL hefur birt á bloggsíðu sinni. Heimsbyggðin er undrandi á voðaverkunum og leitar svara.

Hér er kannski einhver svör að finna?
Að minnsta kosti vekur þetta spurningar...

Vetur og sumar frusu saman - á ári gullsvínsins

Vetur og sumar frusu saman og veit það á gott sumar samkvæmt þjóðtrúnni. Persónulega legst sumarið afar vel í mig, en samkvæmt kínverskri talnaspeki erum við á ári Gullsvínsins. Dulspekingar hafa miklar skoðanir á tölum og í sumum fræðum er 7 happatala í öðrum varasöm. 007 hefur verið lygilega heppinn í gegn um tíðina, en 8 og sérstaklega 888 eru happatölur Kínverja. Dagurinn lofar góðu enda fallegur. Á eftir opna kosningaskrifstofur í Árborg og víðar og viðrar vel til opnunar í Tryggvaskála, en það er klukkan 3 í dag sem formleg opnun er.

Þá er 07.07.07 dagsetning sem margir horfa á, en slíkar dagsetningar eru eðli máls samkvæmt aðeins 12 á öld

01.01.. 2001
02.02. 2002
03.03. 2003
04.04. 2004
05.05. 2005
06.06. 2006
07.07. 2007
08.08. 2008
09.09. 2009
10.10. 2010
11.11. 2011
12.12. 2012


Heitt vatn og eldur í höfuðborginni síðasta vetrardag

Það á ekki af henni Reykjavík að ganga í dag. Fyrst er það stórbruni einhverra elstu húsa í miðborginni og nú gefur sig stór heitavatnslögn. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tók sig vel út í dag þar sem hann fylgdist með brunanum í miðborginni, en það er ekki ein báran stök og nú hefur heita vatnið verið tekið af hluta 101 Reykjavík.

Eitt er ljóst að húsbruninn skilur eftir sig óbætanlegt tjón í hjarta höfuðborgarinnar.


Eldur í Reykjavík

Eitt elsta hús Reykjavíkur yfir tvöhundruð ára gamalt logar og önnur 2ja alda gömul eru í hættu beggja vegna í Austurstræti. Ekki eru neinar fréttir af slysum á fólki. Iðuhúsið er næst í röðinni þar sem það stendur við Lækjargötu, en eins og menn muna var þar áður Nýja Bíó og Tunglið sem einnig brann. Það er mikill missir af þessum gömlu húsum, því óhætt er að segja að ekki er ofmikið til af sögulegum húsum á Íslandi. Miðborg Reykjavíkur hefur brunnið oftar en einu sinni og mörg hús glatast. Þessi reitur sem myndar horn Austurstrætis og Lækjargötu hefur þó haldist sæmilega heill þangað til í dag.

Vonandi tekst að ráða niðurlögum eldsins áður en hann eyðileggur meira.


Kolviður mætir

Gott framtak að stofna kolefnisjöfnunarsjóðinn Kolvið. Nú geta allir Íslendingar lagt sitt af mörkum til að jafna kolefnisáhrif sín með því að efla skógrækt til jafnvægis við kolefnislosun.

Vefsíða Kolviðs opnar eftir mánuð, en Kaupþing er þegar farið af stað og búið að "kolefnisjafna" sig. Guðfinna Bjarnadóttir er formaður stjórnar og er sagt að upphaflegu hugmyndina sé að rekja til tónleika Fræbblanna árið 2003 í samvinnu við Landvernd og Skógræktarfélag Ísland. Góðir fræbblar.

Þetta framtak er dæmi um hvað hægt er að gera jákvætt með því að virkja frumkvæði einstaklinga, stofnanna og fyrirtækja. Í stað þess að einblína á ráðstefnur um gróðurhúsaáhrifin er strax unnt að virkja áhuga fólks til góðra verka. Skattar eru ekki eina lausnin þegar kemur að því að móta hegðun fólks. Þessi leið er til fyrirmyndar og á eftir að vekja athygli víða.

 


Þjóðarsorg, fjöldamorð.

Það er erfitt að ímynda sér tilfinningarnar og ástandið í Virginíu þessa dagana. Fjöldamorð í skóla er út af fyrir sig óhugnanlegt, en að það sé framið af skólafélaga fórnarlambanna er enn erfiðara að skilja. Þetta er því miður ekki einsdæmi.

Gæti þetta gerst hér á Íslandi? Það efast ég stórlega um. Hvað veldur svona brjálsemi? Hafa fjölmiðlar áhrif? Því verður ekki svarað hér, en lög um byssueign skipta sjálfsagt miklu, enda ótrúlega auðvelt að nálgast skotvopn í Bandaríkjunum.

Sorgin er mikil hjá aðstandendum í þessu hörmungarmáli.
mbl.is Bush segir þjóðarsorg ríkja í Bandaríkjunum vegna atburðanna í Blacksburg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landið er að rísa

Sjálfstæðisflokkurinn má vel við una ef hann nær yfir 40% í kosningunum. Árni M. Mathiesen skipar nú 1. sæti listans í Suðurkjördæmi og er efalaust styrkur af því að fjármálaráðherra skuli leiða listann. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sterkt bakland í nær öllum sveitarfélögum kjördæmisins og á því að geta náð 4-5 mönnum kjördæmakjörnum.

Samfylkingin hlýtur að leita skýringa á miklu fylgistapi í þessu lykilkjördæmi sínu. Margrét Frímannsdóttir var vinsæll forystumaður, en það er gríðarlegt högg fyrir framboðið að tapa helmingi þingmanna kjördæmisins.

Hverju er um að kenna Björgvin?

Ef niðurstaða kosninganna verður í takt við þessa könnun má flokkurin því vel við una. Markið hlýtur þó að vera sett á 5. manninn, en í 4. sæti er Björk Guðjónsdóttir Reykjanesbæ og í því 5. er Unnur Brá Konráðsdóttir Hvolsvelli. Báðar eru því í baráttusæti og verður fróðlegt að sjá hvernig kosningu listinn fær þann 12. maí.

Spái samt því að Framsókn nái Bjarna Harðar inn og VG fái einn. 


mbl.is VG og Sjálfstæðiflokkur auka fylgi sitt í Suðurkjördæmi á kostnað Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

JFM í 1. sæti í Kraganum

Það verður spennandi að fylgjast með Jakobi, Ómari og Margréti á næstu 4 vikum. Aðeins tæpur mánuður til kosninga og margt getur gerst á stuttum tíma. Jakob Frímann er duglegur maður og verður örugglega kraftur í framboðinu á næstu dögum. Það er hins vegar ljóst að allt of langur tími hefur farið í að stilla upp listum, enda eru þeir ekki allir komnir fram. Ég óska þeim alls hins besta í kosningabaráttunni, en það má segja þeim til hróss að þau hafi komið náttúru- og umhverfissjónarmiðum inn óháð annari flokkapólítík.

Ómar kemur úr Sjálfstæðisflokknum, Jakob úr Samfylkingunni og Margrét úr Frjálslynda flokknum.  


mbl.is Jakob Frímann í 1. sæti á lista Íslandshreyfingar í Suðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjaldséðir hvítir hrafnar og...svartir svanir

Eitt útbreiddasta fríblað landsins er Bændablaðið, en það kemur út í 16.300 eintökum hundrað sinnum á ári. Vefur blaðsins www.bbl.is er lifandi og skemmtilegur og í dag er til dæmis frétt um býflugnadauðann sem bloggað var um hér í fyrradag og svo birtar myndir af svörtum svani sem hefur gert sig heimakominn í Mývatnssveit.

Sjaldséðir svartir svanir.

svartur-svanur


Fleiri vilja áfram sömu ríkisstjórn

Þorsteinn Pálsson skrifar góðan leiðara í Fréttablaðið í morgun þar sem hann bendir á að sennilega hafi úrslitin í íbúakosningunum í Hafnarfirði breytt umræðunni fyrir þingkosningarnar. Margir fengu útrás fyrir stopp-vilja sinn og enn fleiri fengu nóg af einhliða umræðu um umhverfismál. Allir eru sammála um að við þurfum að ganga betur um umhverfið og náttúruna, en sú nálgun þarf að vera yfirveguð og skynsamleg. Eitt af því sem ég hef tekið eftir er að núverandi ríkisstjórnarflokkar eru að sækja í sig veðrið í könnunum og umhverfisframboðin tvö hafa dalað hægri og vinstri. Hversu marktækt þetta er kemur í ljós 12. maí, en oft er það svo að Páskarnir móta skoðanir fólks þegar kosningar eru í maí. Þá hittist fólk og spjallar áður en kosningabaráttan hefst.

Hér á síðunni eru óformlegar og óvísindalegar kannanir. Ein þeirra er um stjórnarmynstur en ég hef tekið eftir því að jafnt og þétt fjölgar þeim sem velja DB umfram aðrar samsetningar og má segja að þar vilji fleiri sömu ríkisstjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka sýnt enn frekari áherslu á umhverfismál og minnkar þannig sérstaða þeirra framboða sem hafa helst sótt styrk sinn í umhverfisvernd. Ég hef þá trú að þessi þróun hjá Sjálfstæðisflokknum sé komin til að vera, enda þróast flokkurinn rólega en örugglega.

Væntingavísitala Gallup segir talsvert um hug fólks til framtíðarinnar eins og hann mælist hverju sinni. Vísitalan hefur verið milli 140 til 149 stig sem er ótrúlega hátt.

Það er ekki gaman að vera í stjórnarandstöðu þegar landinn er svona bjartsýnn á framtíðina undir stjórn núverandi stjórnar.


Ætlaði Steingrímur J. í Framsókn en endaði með VG?

Benedikt Sigurðsson samfylkingarmaður með meiru birtir "ræðuna sem ekki var flutt" á vefsíðu sinni sem lesa má hér, en þar segir hann meðal annars:

"Prívat finnst mér heiðarlegt að játa að ég saknaði þess ekki að Steingrímur J Sigfússon stofnaði til sérframboðs  - eftir að Hjörleifur Guttormsson hafði talið hann ofan af því að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn eins og Halldór Ásgrímsson og Kristinn H Gunnarsson höfðu reiknað með.   Ég sá ekki eftir því að Steingrímur Jóhann yrði í öðrum stjórnmálaflokki en ég – því hann hafði áður hjálpað mér til að  skilja að það væri best fyrir mig að yfirgefa Alþýðubandalagið sáluga – enda Steingrímur hvorki VINSTRI NÉ GRÆNN á þeim árum fremur en nú."

Það er margt fróðlegt í ræðu Benedikts sem rataði á bloggsíðu hans en ekki í pontu. Segja má að Benedikt tali umbúðalaust og vilji Samfylkinginni vel, enda er vinur sá til vamms segir. Hér segir hann skoðun sína á flokksbrotum Samfylkingarinnar:

"Á þessum landsfundi Samfylkingarinnar les ég klofin viðhorf – ég  sé að nokkrar klíkurnar lifa góðu lífi – ég sé að hér er ennþá fólk sem er í óða önn við að skilgreina sig til aðgreiningar frá öðrum – menn beita hugtökum til að aðgreina sig frá hver öðrum – tala um góða jafnaðarmenn – tala um Natósinna – tala um feminista og systur í kvennabaráttunni – tala um umhverfis-sinna – um öfgamenn – tala um stóriðjusinna.   Hér eru ennþá menn sem telja að það sé brýnt fyrir kosningarnar 2007 að berja í gegn ályktanir  - með eða  á móti NATÓ – hér eru embættismenn flokksins eða eyða púðri í slíka vitleysu" 

Það er fróðlegt að lesa þessa ræðu í samhengi við ítarlega grein Jóns Baldvins í lesbók Morgunblaðsins á Laugardag.


Farsímar að drepa býflugurnar?

Albert Einstein sagði eitt sinn að ef býflugurnar hyrfu hefði mannkynið fjögur ár ólifuð. Hvers vegna? Jú vegna þess að býflugur Apis mellifera eru nauðsynlegar við frjóvgun fjölmargra plantna.

"If the bee disappeared off the surface of the globe then man would only have four years of life left. No more bees, no more pollination, no more plants, no more animals, no more man." 

Að undanförnu hefur borið á því í Bandaríkjunum og eitthvað í Evrópu að býflugur yfirgefi bú sín og skilji drottninguna eina eftir. Í Pennsylvaníu hefur einn býflugnabóndi misst 992 bú af 1.000 án viðhlýtandi skýringa. Í nágrenni London hefur einn býflugnabóndi misst 23 af 40 búum án þess að menn hafi skýringar á því. Nú hefur rannsókn í Landau háskólanum í Þýskalandi gefið til kynna að samhengi geti verið milli notkun farsíma og þess að býflugur hverfi frá búum sínum. Frá þessu er sagt í Independent í dag. Meira þarf að skoða málið til að sannreyna eða afsanna þessa tilgátu, en hún hefur vakið athygli, enda skelfilegt ef satt reynist. Aðrar kenningar eru uppi um brotthvarf býflugnanna eins og á tilgátuvefnum truth.org en farsímatilgátan er óvæntust.
bees5

Líkleglegast er þó að lífið haldi áfram, en þessi frétt minnir okkur á hvað margar minnstu lífverurnar eru okkur mikilvægar.   

 


Johnny Cash, Geir, Jón Baldvin, Stefán Hilmars og litasjónvarpið

Á laugardagskvöldið var margt um manninn á Breiðvangi í Ármúlanum. Geir tók lagið og það ekki af verri endanum: I walk the line með upprunalegum texta Cash og staðfærðum texta séra Hjálmars Jónssonar dómkirkjuprests. Stefán Hilmarsson og Regína Ósk brilleruðu líka og Stefán átti setningu kvöldsins þegar hann sagði í kynningu á lagi frá sjöunda ártugnum að "vonandi tæki Steingrímur J. ekki af okkur litasjónvarpið". Öllu gamni fylgir alvara og það er rétt að hafa það í huga að frelsið og framfarirnar hafa ekki komist áfram án andstöðu. Líka frjálst sjónvarp og útvarp eins og menn muna.

Það eru því fleiri söngvarar pólítískir þessa dagana en Björk.

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar ítarlega grein í lesbók Morgunblaðsins í gær. Ég komst í hana meðan ég var á þrekhjóli og tek eftir því hvernig hann rifjar upp bakgrunn Steingríms J. og Ögmundar. Það er nefnilega þannig að þeir eru meira vinstri en grænir. Reyndar er það svo að vinstrigrænt jaðrar við að vera öfugmæli, enda hafa ekki verið til meiri umhverfissóðar en sósíalistar og kommúnistar. Þarf ekki að nefna Tsjernóbíl því mengun var landlæg í öllum löndum kommúnismans. Það er í löndum frelsisins sem mestar framfarir hafa orðið í tækni, endurvinnslu og ekki síst umhverfisvitund. Og er það engin tilviljun.

 


Umboð þjóðarinnar

Eftir 27 daga kemur í ljós hvort þjóðin vill veita Sjálfstæðisflokknum og formanni hans umboð til að leiða næstu ríkisstjórn. Geir H. Haarde nýtur yfirburðatrausts sem forsætisráðherra. Reyndar er það svo að enginn formaður hinna framboðanna kemur með tærnar þar sem hann hefur hælana.

Á landsfundinum sem lauk fyrir stundu voru fjölmargar merkar ályktanir samþyktar. Það er og hefur verið einn helsti styrkleiki Sjálfstæðisflokksins hvernig málefnastarfi er háttað. Landsfundur er stefnumarkandi og mark er tekið á landsfundarályktunum. Þetta er lýðræði í reynd. Á landsfundi er forysta flokksins kjörin og geta allir landsfundarfulltrúar boðið sig fram. Það er lýðræðislegt. Með þessum hætti endurnýjar flokkurinn umboð sitt og viðheldur sterkum tengslum við grasrót flokksins.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er fjölmennur og sækir styrk sinn til hinna mörgu félaga um land allt. Það er því ekki að undra að stefna og forysta Sjálfstæðisflokksins skuli ávalt höfða til breiðs hóps. Þessi tengsl smita út frá sér, ekki síst þegar landsfundur er haldinn með þeim jákvæða anda sem einkenndi landsfundinn í ár. Umboð forystunnar var endurnýjað og tvíeflt. Það er verðmætt veganesti, því samhentur Sjálfstæðisflokkur er kjölfestan í íslenskum stjórnmálum nú sem fyrr.


mbl.is Geir: Fer fram á endurnýjað umboð til að stýra næstu ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkt lítum við Ísland

Ingibjörg Sólrún leit vel út á sviðinu í Egilshöll. Hún er sterk baráttukona sem hefur unnið stóra pólítíska sigra og það ber að virða. En það er engu líkara en formaður Samfylkingarinnar sé að lýsa öðru Íslandi en staðreyndir lýsa. Allt er sagt hér farið á versta veg og efnahagur fólks í rúst. Þegar illa árar virkar svona málatilbúnaður vel, en í dag hljómar hann holur. Að sjálfsögðu er alltaf hægt að gera betur, ekki síst við þá hópa sem minnst mega sín. Þar er verk að vinna og hverjum treystum við best til þess? Það sem hefur gerst á síðustu árum verður samt varla kallað annað en undur. Þjóðartekjur á mann eru með því allra hæsta í heiminum. Misskipting er með því minnsta sem þekkist. Sókn er á öllum sviðum eins og Geir H. Haarde lýsti vel í setningarræðu sinni á fimmtudag.

Össur Skarphéðinsson fyrrum formaður Samfylkingar var með svipaðan boðskap fyrir átta árum síðan en þá voru fleyg orð hans um "tifandi tímasprengju". Síðustu átta ár voru svo bestu hagvaxtarár Íslandssögunnar þegar saman hefur farið stóraukinn kaupmáttur, aukinn hagnaður fyrirtækja, auknar eignir heimilanna og lágmarks atvinnuleysi. Auðvitað þurfum við að fara varlega þegar mikil þensla er, en gleymum því ekki að þensla er vöxtur tekna, eigna, starfa og þjóðarbúss.
Margir myndu öfunda okkur af okkar vandamálum.

Höfum trú á fólkinu sem stjórnar fyrirtækjunum. Höfum trú á heimilunum. Höfum trú á framtíð Íslands.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband