Hjörleifur vill Ómar burt - Jón Baldvin ekki með

 

Hjörleifur Guttormsson frambjóðandi VG í Reykjavík hvetur Ómar Ragnarsson til að draga framboð sitt til baka. Sennilega vill VG "eiga" græn mál og telja ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn dragi sig í hlé. Ekki er ég viss um að VG uppskeri mikið með þessum málflutningi, enda þvert á fyrri yfirlýsingar þegar forysta VG fagnaði framboði Ómars og félaga. Katrín Jakobsdóttir sagðist "fagna komu annars framboðs sem leggur áherslu á umhverfismál."

- Nú kveður við annan tón.

Fréttir um að Jón Baldvin Hannibalsson fyrrum formaður Alþýðuflokksins verði í framboði á vegum Íslandshreyfingarinnar hafa verið áberandi að undanförnu. Voru reyndar á forsíðu Blaðsins fyrir skemmstu. Nú hefur Ómar Ragnarsson formaður Íslandshreyfingarinnar hins vegar staðfest að ekkert verði af því að Jón Baldvin verði með á lista. Vissulega hefði verið fróðlegt að sjá Jón Baldvin í þessari rimmu sem framundan er, en fyrrum félagi hans Jón Sigurðsson hefur verið áberandi í málefnastarfi Samfylkingarinnar (áður en málefnastarfið hefst á landsfundi).

Hvað segir Jón Baldvin?


Föstudagurinn þrettándi. . .

Þá er föstudagurinn 13. runninn upp.

Er það bara tilviljun að Samfylkingin haldi sinn fund á þessum degi?
Eða veit þetta á eitthvað sérstakt?

Málefnavinna Samfylkingarinnar hefst klukkan 13:00 -  föstudaginn þrettánda

http://www.xs.is/Forsida/Upplysingar/Atburdir/Birtaatburd/223


Landsfundur 2007

Það var talsverð eftirvænting í loftinu þegar beðið var þess að landsfundur yrði settur, enda einn stærsti stjórnmálaviðburður á Íslandi. Upphafsatriðið var stórglæsilegt tónaflóð með íslenska náttúru í baksýn. Geir og Þorgerður birtust skyndilega í hópi frambjóðenda á sviðinu og ávörpuðu landsfundargesti sterk og afslöppuð.

Ræða Geirs var sterk þar sem farið var yfir þær ótrúlegu framfarir sem átt hafa sér stað í íslensku þjóðfélagi síðustu ár. Ríkið er skuldlaust við útlönd, lífeyriskerfið er einstakt, skattar hafa lækkað, framlög til mennta- og heilbrigðismála hafa aukist, samgöngur eflst, hagvöxtur verið yfir 4% og kaupmáttur vaxið um 60%. Og gleymdi ég að nefna að atvinnuleysi er varla til. Þetta kallar stjórnarandstaðan hagstjórnarmistök.

Geir fór yfir það sem gera þarf næst og minnti á að velferð byggist á verðmætasköpun, en því virðast ýmsir frambjóðendur gleyma. Sigrar á efnahagssviðinu hafa tryggt þann grundvöll sem tryggir raunverulega velferð sem ekki er byggð á skuldasöfnun. Átak í samgöngumálum er framundan og áframhaldandi efling menntakerfisins. Málefni aldraða gleymdust ekki og nefndi Geir nokkur úrræði sem hann vildi beita sér fyrir. Þar finnst mér merkast að launatekjur aldraðra verði ekki til þess að greiðslur til þeirra skerðist. Það er mikið réttlætismál.

Landsfundur er hátíðisstund og fóru landsfundargestir glaðir í bragði af setningu fundarins. Veganesti okkar er góð málefnastaða í mikilvægum kosningum.

p.s.

Sá Illuga Gunnarsson og Guðmund Steingríms í sjónvarpinu áðan: Illugi 1, Guðmundur 0.


Slæm könnun - spyrjum að leikslokum

Könnun Stöðvar 2 í Suðurkjördæmi sýnir verri stöðu Sjálfstæðisflokks en Gallup. Þótt vikmörk séu talsverð, er rétt að taka þessa könnun alvarlega. Nú þegar mánuður er til kosninga má búast við því að buddan og heimilsreksturinn verði ofar á dagskránni. Vinstri grænir fá mjög góðan byr miðað við þessa könnun. Umræðan fyrir alþingiskosningarnar 2007 hefur hingað til snúist mest um umhverfismál. Það hefur haft áhrif á áherslur allra framboða, en nú kann að verða breytt um takt.

Ríkisstjórnin hefur gert margt vel og er skemmst að minnast lækkun matarskattsins sem kemur heimilunum vel. Þá liggur nú fyrir frá því í dag ákvörðun um útboð tvöfaldun Suðurlandsvegar. Því ber að fagna. En betur má alltaf gera og þá er spurningin: Hverjum treystum við best til þess? Vilja kjósendur fá sósíalista við stjórnvölinn? Vilja þeir ganga í ESB? Ég trúi því ekki að þessar tölur verði þær sem við sjáum að kvöldi dags 12. maí. Ég trúi því ekki að aðeins 30,4% kjósenda kjósi Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi. Þó hann verði aftur stærsti flokkurinn í kjördæminu á hann að vera 40%+ flokkur eins og í sveitarstjórn. Svarhlutfall er ekki hátt, en engu að síður er úrtakið stórt.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst á morgun. Þá hefst sókn Sjálfstæðisflokksins og verður spennandi að heyra ræðu formanns flokksins Geirs H. Haarde. Það verður fróðlegt að bera saman landsfundina tvo og merkja viðbrögð í kjölfar þeirra. Eitt er víst: Því fleiri sem umræðuþættirnir verða, þess skýrari verða kostirnir og gallarnir. Stjórnarandstaðan er sammála um fegurð náttúrunnar. Það erum við flest - sem betur fer. En þegar kemur að málum eins og efnahagsmálum og utanríkispólítík flækist málið og hver höndin er upp á móti annari. Þetta kom vel í ljós í Kastljósinu í gær og svo á Stöð 2 í kvöld, en báðir þættir voru sýndir beint frá Selfossi. Egill Helgason var að ota "nýju" stjórnarmynstri að stjórnarandstöðu og Framsókn: VBS og nefndi ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar sem dæmi. Sjálfsagt væri slík ríkisstjórn heppileg fyrir þáttastjórnendur, en vill þjóðin þetta? Það efast ég um. 

En þessi könnun er góð aðvörun.   


mbl.is Stóraukið fylgi VG í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virk neytendavitund - virk samkeppni

Þarna eru Neytendasamtökin virk að miðla upplýsingum. Það getur verið að þessar hækkanir eigi sér eðlilegar skýringar, enda hefur kaffi hækkað á heimsmarkaði. Það breytir þó ekki því að virk neytendavitund er lykill að virkri samkeppni - og þá lægra verði.

Það er ekkert náttúrulögmál að vörur hækki. Tilhneigingin í verðbólguumhverfi er að fara í víxlverkunarumhverfi þar sem allt hækkar. Enginn græðir á því. Síst af öllu kaupmenn.


mbl.is Danól boðar allt að 15% verðhækkun á matvöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með ákvörðunina!

Með þessari ákvörðun verður ekki aftur snúið; Suðurlands- og Vesturlandsvegur verða tvöfaldaðir. Hér er stórmál á ferð þar sem ríkisstjórnin lætur verkin tala. Tvöfaldur Suðurlandsvegur mun valda straumhvörfum í uppbyggingu á Suðurlandi, auk þess sem þessar miklu vegabætur munu gagnast landsmönnum öllum. Þetta ber að þakka, enda hefur þetta verið eitt helsta baráttumál á Suðurlandi um talsvert skeið samanber undirskriftasöfnunina á www.sudurlandsvegur.is þar sem yfir 25 þúsund skrifuðu nafn sitt undir. 

Til hamingju með ákvörðunina Sturla Böðvarsson.  

 

Eyþór Arnalds

     


mbl.is Útboð á tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar undirbúið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klofið kaffibandalag í Kastljósi

Kastljósið í gær var fróðlegt, en það var í beinni frá FSu á Selfossi. Fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu tókust á um landbúnaðar og utanríkismálin. Kastljósið beindist frekar að stjórnarandstöðunni, enda eru ólíkust sjónarmið þar og morgunljóst að kaffibandalagið býður fram margklofið í stórum málum. Samfylkingin og Frjálslyndir hafa einangrast og var sláandi að finna hvernig Samfylkingin er ein eftir í landbúnaðarmálum og var í raun upp við vegg gagnvart öllum öðrum framboðum. Almennt er sátt um landbúnaðarmálin, enda hafa þau þróast neytendum í hag. Árni M. Mathiesen orðaði það vel þegar hann benti á að nú væri markaður fyrir allar framleiðsluvörur bænda. Það er vert að minnast smjörfjallsins og kindakjötsgarðanna sem hlóðust upp á árum áður.

Utanríkismálin voru tekin fyrir á hlaupum og skautað yfir tvö atriði: Innflytjendamál og ESB.

Frjálslyndir virðast alveg einir í innflytjendamálum. Það mun skila þeim einhverjum atkvæðum, en virðist munu halda þeim úr ríkisstjórn sama hvernig kosningar fara. Geir H. Haarde afgreiddi innflytendaumræðuna í fyrradag með því að minna á að faðir hans er norskur að uppruna. Valgerður Sverrisdóttir minnti á að hún á erlendan mann. Vandi Frjálslyndra í þessari umræðu er að það eru engin veruleg vandamál sem hægt er að tengja við innflytendur í dag. Atvinnuleysið sem er helsta uppspretta óánægju með innflytjendur er ekki til á Íslandi.

Enginn flokkur er með ESB aðild á stefnuskránni. Þeir sem lengst ganga vilja skoða og mögulega kanna og þá fá þjóðina til að ákveða, en enginn vill taka beina afstöðu með ESB inngöngu. Ekki einu sinni Samfylkingin. En hvernig getur framboð sem kallar sig Íslandshreyfinguna vilja ganga lengt í átt til inngöngu í ESB? Íslandshreyfingin vill fara í ESB viðræður og kanna aðild strax og unnt er. Það skýtur skökku við af hálfu flokks sem vill tryggja náttúruauðlindir og kennir sig við Ísland, enda væri forræði okkar yfir náttúruauðlindum stórlega skert ef við færum í ESB. Árni Þór Sigurðsson frambjóðandi VG benti á að fullveldið væri verðmætt og blés á væntingar um varanlegar undanþágur okkur í vil. Þorgerður Katrín súmmeraði málið upp þegar hún benti á að enginn ábati er að aðild.

Til hvers þá að afsala sér sjálfstæði og ganga í samband sem enginn veit hvert er að fara?


Sjálfstæðispönk hjá Björk - frábærir tónleikar

Björk er einhver hugrakkasti tónlistarmaður í heiminum í dag. Hún hélt frábæra útgáfutónleika í kvöld. Lögin af Post og Debut eru alltaf góð, en ákveðinn ferskur blær var á kvöldinu með blásarasveitinni góðu. Hápunktur kvöldsins var samt lokalagið sem Björk tileinkaði Færeyingum og Grænlendingum. Tæknipönk af bestu gerð, hrátt og laust við allt líkingamál.

Hér er úr textanum (eins og ég heyrði hann):

,,Declare independence / Don't let them do that to you"
,,Start your own currency / make your own stamp
Protect your language / raise your flag....raise your flag....raise your flag"


Skynsamlegar áherslur

Sjálfstæðisflokkurinn er stór hægri flokkur vegna þess að hann hefur hlustað á fólkið í landinu. Öfugt við marga hægri flokka sem hafa einangrast hefur hann tekið mið af ólíkum sjónarmiðum til að ná sátt. Þess vegna er hann sterkur.

Hugmyndir um að hægja á í virkjanamálum og að ríkið beiti sér ekki í stóriðjumálum eru dæmi um þetta. Áhersla á samgöngur er brýnni. Það er ekki tilviljun að efnahagslífið hefur styrkst að undanförnu. Skattaumhverfið hefur stórbatnað og það hefur skilað sér í auknum tekjum ríkissjóðs. Það er samt hægt að gera betur. Lækkun matarskattsins í 7% fyrr á árinu er eitt stærsta skrefið, en lækkun tekjuskatts er ekki síður mikilvæg, hvort sem hún er gerð með hækkun skattleysismarka eða með lækkun skattprósentu. Meiri líkur eru til þess að hátekjufólk geri upp sína skatta á Íslandi ef skattprósentan er lág. Þetta hefur sannast og í dag erum við í samkeppni í skattamálum. Afnám stimpilgjalds verður framfaraspor.

Hugmyndir um að afnema lágmarksútsvar sveitarfélaga er áhugaverð hugmynd.
Kannski verður aukin samkeppni og sérhæfing þeirra á millum í framtíðinni?

Eyþór Arnalds eythor arnalds Eyþor arnalds


mbl.is Sjálfstæðisflokkur stefnir að frekari skattalækkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oft kemur rugl frá prófessorum

Eitthvað hefur stjórnmálaprófessorinn Uwe E. Reinhardt í Nýju Jersey misst sig í páskaglensi sínu. Það virðist vera að hann sé að gagnrýna utanríkisstefnu heimalands síns með nokkuð beittri ádeilu, en þarna er eitthvað farið út fyrir velsæmismörk. Kannski finnst einhverjum þetta fyndið í Princeton háskóla, en ég held að fáum finnist þetta fyndið hér á landi.

Greinin er skrifuð á vefinn www.dailyprincetonian.com og er að finna hér.

Titillinn er: "Bomb Iceland instead of Iran"

 


mbl.is Nær að sprengja Ísland en Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

DV, VÍS, VBS, DS eða óbreytt ríkisstjórn

DV, VÍS og Verðbréfastofan munu seint mynda ríkisstjórn, en framboðslistar með sömu skammstöfunum koma til greina. VBS er hefðbundin íslensk vinstri stjórn, en VÍS væri nýlunda.

Margt bendir til þess að tveggja flokka ríkisstjórn verði aðeins mynduð með Sjálfstæðisflokknum.
 
Kaffibandalagið virðist vera sprungið ef marka má yfirlýsingar S og V lista um innflytjendamál.
Íslandshreyfingin er að mælast sterkar en Frjálslyndir, ekki síst formaðurinn Ómar Ragnarsson.

Ríkisstjórnin heldur velli samkvæmt Capacent-Gallup þó naumlega sé.

Líkleg stjórnarmynstur eru því:


DV
VÍS
VBS
DS
DB

Vegna þessarar stöðu er komin ný könnun hér við hliðina þar sem valið stendur á milli þessara kosta.


Össur alltaf gamansamur

Össur Skarphéðinsson bloggar á síðu sinni um skoðanakannanir undir yfirskriftinni: 

"Samfylkingin tekur flugið" 

Ekki veit ég hvernig flug átt er við, en þó gæti þetta verið lágflug.

Allar kannanir undanfarna mánuði hafa staðfest það sama: Fylgi Samfylkingar er rétt undir 20% og hefur verið undir fylgi VG um allnokkurt skeið.

Þá hefur þetta gerst:

(1) Ríkisstjórnin heldur velli samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Capacent-Gallup
(2) 28% kjósenda eru jákvæðir gagnvart formanni Samfylkingar, en 51% neikvæðir, eða -23% nettó sem er svipað og George W. Bush eins og sjá má hér.
(3) Geir H. Haarde nýtur yfirburðarstöðu langt út fyrir raðir kjósenda Sjálfstæðisflokks með 55% jákvæða gagnvart honum.
(4) Ómar Ragnarsson mælist vinsælli en formenn Samfylkingar, Frjálslyndra og Framsóknar.

Lokaorð Össurar í bloggfærslunni eru í senn ljóðræn og gamansöm:

"Landið er að rísa, og sólin tekin að hækka á lofti. Það gildir þó ekki um sól ríkisstjórnarinnar, sem er að breytast í kulnaðan vígahnött á leið langt út fyrir sólkerfi kjósenda."


mbl.is Geir nýtur mestra vinsælda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir vinsælastur svo Steingrímur þá Ómar en...Ingibjörg er óvinsælust

Nokkuð merkileg niðurstaða í könnun Gallup um flokksleiðtogana. Alls voru 56% jákvæð í garð Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins. Nokkuð færri eða 51%, voru jákvæðust í garð Steingríms J. Sigfússon, formanns VG. Þriðji í vinsældum er svo Ómar Ragnarsson, formaður Íslandshreyfingarinnar, 43% eru jákvæð í hans garð, en það hljóta að teljast tíðindi að nýjasti formaðurinn skuli hreppa bronsið.

Þessir þrír hafa jákvæða stöðu þegar neikvæð viðhorf eru dregin frá jákvæðum.

Mun minna fá hinir þrír formennirnir, en 28% sögðust jákvæð í garð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttir, formanns Samfylkingarinnar. Fjórðungur í garð Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins og 23% í garð Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins

Neikvæðastan hug ber fólk til Ingibjargar Sólrúnar, en 51% segjast neikvæðir í hennar garð. Nokkuð færri láta í ljósi vanþóknun sína gangvart Guðjóni eða 41%. Um 37% eru neikvæð gagnvart Jóni. Þriðjungur kjósenda er neikvæður í garð Ómars og Steingríms en fæstir eða 19% gagnvart Geir.

Það er því ljóst að Geir nýtur yfirburðarstöðu í þessari mælingu, en hástökkvarinn er Ómar Ragnarsson hvernig sem á tölurnar er litið.

Hvað segir Samfylkingarfólk um þessa stöðu?
Verður Össur auglýstur?


Hvað erum við að búa til?

Alþjóðavæðingin teygir sig víða og kemur ekki síst fram hjá bönkunum. Sú var tíðin að menn þekktu hvern annan í fámenninu, en er ekki fullangt gengið að spyrja 18 ára pilt um hryðjuverkastarfssemi hans? Og skyldmenna hans? Á Íslandi eru haldgóðar upplýsingar um alla. Hér eru kennitölur með fæðingardegi. Hér er Reiknistofa Bankanna sem heldur utan um allar færslur. Þetta er meira en gengur og gerist. Þegar ég bjó í Bretlandi þar sem engar kennitölur eru og engin Reiknistofa Bankanna þurfti ég að sanna tilvist mína með því að leggja fram launaseðla og reikninga frá þremur ólíkum aðilum á heimilisfang í Bretlandi. Þannig reyna bankamenn í Bretlandi að staðfesta tilvist þeirra sem sækja um viðskipti. En á Íslandi eru hæg heimatökin og óþarfi að búa til skrifræði að óþörfu.


mbl.is „Ertu hryðjuverkamaður?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

50 tonn af páskaeggjum

Meðalþyngd íslenskra karla var 79,4 kg árið 1968 en var komin upp í 87,9 kg árið 1998. Gætum verið komin yfir 90 kg í dag miðað við þetta. Ég þekki það á eigin skinni að aukakílóin sækjast í selskap hvert við annað. Það er kannski illa gert að vera að minna á þessa þróun daginn áður landsmenn torga kannski 50 tonnum af súkkulagðieggjum, en einhvernveginn kom þetta upp í hugann í morgun.

Í dag eru lífslíkur Íslendinga meiri en flestra annara og eru nú svo komið að íslenskir karlmenn eru í fyrsta sinn manna líklegastir til að ná hárri elli og nálgast 80 ár að jafnaði. Margir eru á því að mesta heilbrigðisógn 21. aldarinnar sé offita. Það er því ekkert að því að kaupa aðeins minna páskaegg, enda er 1 málsháttur í hverju eggi, enda skiptir stærðin ekki máli í þeim efnum.

Gestaþáttur Hávamála fjallar um átið þótt minna hafi verið um offitu á þeim tímum:

Gráðugur halur,
nema geðs viti,
etur sér aldurtrega.
Oft fær hlægis
er með horskum kemur
manni heimskum magi.

Hjarðir það vitu
nær þær heim skulu
og ganga þá af grasi.
En ósvinnur maður
kann ævagi
síns um mál maga.


Velheppnuð stund í Selfosskirkju

Í dag voru lesnir Passíusálmarnir víða, en það er að verða árviss hefð í Selfosskirkju hjá séra Gunnari Björnssyni. Lesarar voru 17 talsins úr ýmsum starfsgreinum úr sókninni. Hallgrímur Pétursson er í hópi þeirra sem mest hafa mótað íslenskt mál og haft mikil áhrif á þúsundir Íslendinga frá blautu barnsbeini með kvæðum sínum.

Það er rétt að enda daginn á síðasta og 13. erindi 50. sálmsins:

Ég lifi í Jesú nafni,
í Jesú nafni eg dey.
Þó heilsa og líf mér hafni,
hræðist ég dauðann ei.

Dauði, ég óttast eigi
afl þitt né valdið gilt.
Í Kristí krafti eg segi:
Kom þú sæll, þá þú vilt.


mbl.is Passíusálmar lesnir víða um land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nafnabrengl hjá Frjálslyndum og Íslandshreyfingunni?

Kosningarnar verða spennandi í vor og geta mögulega oltið á útkomu nýrra framboða. Þegar áherslur F og Í lista eru skoðaðar, er ekki laust við að það hvarfli að mér að nafnabrengl hafi átt sér stað. Frjálslyndi flokkurinn er að minnsta kosti ekki mjög frjálslyndur í garð innflytjenda, enda ljóst að þar vilja menn hefta "frjálst flæði vinnuafls". Sumir frambjóðendur Frjálslynda flokksins  kalla eftir Íslandi fyrir Íslendinga. Er Íslandshreyfingin ekki ágætis nafn fyrir slíka stefnu?

Íslandshreyfingin vill stopp á stóriðju, en að öðru leyti virðist hún vilja hóflega skattheimtu og einfalt stjórnkerfi, sem í eðli sínu er tiltölulega frjálslynd stefna.

Kannski menn ættu að skipta?

 


Holl lesning

Í dag er píslardauða Jesús Krists minnst um allan heim. Hallgrímur Pétursson orti mikið meistaraverk með Passíusálmunum. Þeir lifa vel með okkur og eiga enn fullt erindi á 21. öldinni.

Hér er svo fyrsti sálmur sem er í 27 erindum:

Upp, upp, mín sál og allt mitt geð,
upp mitt hjarta og rómur með,
hugur og tunga hjálpi til.
Herrans pínu ég minnast vil.

Sankti Páll skipar skyldu þá,
skulum vér allir jörðu á
kunngjöra þá kvöl og dapran deyð,
sem drottinn fyrir oss auma leið. 

Ljúfan Jesúm til lausnar mér
langaði víst að deyja hér.
Mig skyldi og lysta að minnast þess
mínum drottni til þakklætis.

Innra mig loksins angrið sker,
æ, hvað er lítil rækt í mér.
Jesús er kvalinn í minn stað.
Of sjaldan hef ég minnst á það.

Sál mín, skoðum þá sætu fórn,
sem hefur oss við guð, drottin vorn,
fordæmda aftur forlíkað.
Fögnuður er að hugsa um það.

Hvað stillir betur hjartans böl
en heilög drottins pína og kvöl?
Hvað heftir framar hneyksli og synd
en herrans Jesú blóðug mynd?

Hvar fær þú glöggvar, sál mín, séð
sanna guðs ástar hjartageð,
sem faðir gæskunnar fékk til mín,
framar en hér í Jesú pín?

Ó, Jesú, gef þinn anda mér,
allt svo verði til dýrðar þér
uppteiknað, sungið, sagt og téð.
Síðan þess aðrir njóti með.

Að liðinni máltíð lofsönginn
las sínum föður Jesús minn.
Síðasta kvöldið seint það var.
Sungu með hans lærisveinar.

Guðs sonur, sá sem sannleiks ráð
sjálfur átti á himni og láð,
þáði sitt brauð með þakkargjörð,
þegar hann umgekkst hér á jörð.

Þurfamaður ert þú, mín sál,
þiggur af drottni sérhvert mál,
fæðu þína og fóstrið allt.
Fyrir það honum þakka skalt.

Illum þræl er það eilíf smán,
ef hann þiggur svo herrans lán
drambsamlega og dreissar sig.
Drottinn geymi frá slíku mig.

Eftir þann söng, en ekki fyrr,
út gekk Jesús um hússins dyr.
Að hans siðvenju er það skeð.
Til Olíufjallsins ganga réð.

Lausnarans venju lær og halt,
lofa þinn guð og dýrka skalt.
Bænarlaus aldrei byrjuð sé
burtför af þínu heimili.

Yfir um Kedrons breiðan bekk
blessaður þá með sveinum gekk.
Sá lækur nafn af sorta ber.
Sýnir það góðan lærdóm mér.

Yfir hörmungar er mín leið,
æ meðan varir lífsins skeið.
Undan gekk Jesús, eftir ég
á þann að feta raunaveg.

Horfi ég nú í huga mér,
herra minn Jesú, eftir þér.
Dásamleg eru dæmin þín.
Dreg ég þau gjarnan heim til mín.

Þú vildir ekki upphlaup hart
yrði, þegar þú gripinn vart.
Út í grasgarðinn gekkstu því.
Gafst þig í manna hendur frí.

Af því læri eg að elska ei frekt
eigin gagn mitt, svo friður og spekt
þess vegna raskist. Þér er kært
þolinmæði og geð hógvært.

Sorgandi gekkstu sagða leið.
Særði þitt hjarta kvöl og neyð.
Hlæjandi glæpa hljóp ég stig.
Hefur þú borgað fyrir mig.

Vort líf er grasgarðs ganga rétt.
Gröfin er öllum takmark sett.
Syndugra leið ei leik þér að.
Lendir hún víst í kvalastað.

Iðrunartárin ættu vor
öll hér að væta lífsins spor.
Gegnum dauðann með gleði og lyst
göngum vér þá í himnavist.

Þá Jesús nú á veginum var,
við postulana hann ræddi þar,
henda mundi þá hrösun fljót.
Harðlega Pétur þrætti á mót.

Frelsarinn Jesús fyrir sér
þá fall og hrösun er búin mér.
Hann veit og líka lækning þá,
sem leysa kann mig sorgum frá.

Aldrei, kvað Pétur, ætla ég
á þér hneykslast á nokkurn veg
þó allir frá þér falli nú. -
Fullkomleg var hans lofun sú.

Sú von er bæði völt og myrk
að voga freklega á holdsins styrk.
Án guðs náðar er allt vort traust
óstöðugt, veikt og hjálparlaust.

Gef mér, Jesú, að gá að því,
glaskeri ber ég minn fésjóð í.
Viðvörun þína virði eg mest,
veikleika holdsins sér þú best.

Klukkan 13:00 í dag hefst lestur þeirra í Selfosskirkju og stendur hann þar til síðasti sálmurinn hefur verið lesinn, en áætlað er að það verði um kl. 17:00 Þeir sem ekki komast geta kynnt sér þá hjá Netútgáfunni hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband