Um hvað er verið að semja við Bretana?

Nú berast fréttir af því að verið sé að ná samkomulagi við Breta. Lögfróðir menn benda á lög um innistæðutryggingar 1999 nr. 98 27. desember en þar er vísað í innistæðudeild Tryggingasjóðs innistæðutrygginga. Þessi lög byggja á tilskipun ESB frá 1994. Þessar ábyrgðir eru takmarkaðar. 

Þá hefur Alþingi samþykkt neyðarlög sem tryggja sparifjárinnistæður sem forgangskröfur við þrot. Með því er gengið lengra en framangreind lög gera ráð fyrir. Þessi lög tryggja þó ekki fullar bætur fyrir breska sparifjáreigendur. 

Bretar hafa sett á okkur hryðjuverkalög og farið með miklu offorsi.

Af hverju ættum við þá að ganga lengra en lög og  EES reglur kveða á um?

Það síðasta sem við ættum að gera er að setja ríkissjóð í skuldir umfram það sem nauðsyn krefur. Nóg verður samt til að halda uppi því samfélagi sem við viljum halda.

Ég trúi því að menn verði fastir fyrir með rétt Íslands. Munum það að styrkur okkar í landhelgisdeilunum skilaði okkur fullnaðarsigri sem aðrar þjóðir tóku sér til fyrirmyndar.

Við eigum að virða lög og rétt en jafnframt að varðveita ríkissjóð fyrir komandi kynslóðir.  


Hvað með Fjölmiðlafrumvarpið?

Ólafur Ragnar hefur verið ósérhlífin í aðstoð við íslensk fyrirtæki í útrásarhug bæði nótt sem nýtan dag. Það sem kemur þó óhjákvæmilega í hugann um þessar mundir er synjun forseta við lög samþykkt af Alþingi Íslendinga þar sem takmörkuð var eignaraðild að fjölmiðlum.

Í dag sjá allir að fjölmiðlarnir fóru beint í eigu sömu aðila og eignuðust bankanna. Sömu manna og keyptu upp fyrirtæki innanlands og erlendis með skuldabréfum. Sömu manna og nú sjást lítið eftir að kom að skuldadögum og þjóðin er að lenda í skuldahala.

"Í athugasemd um atkvæðagreiðsluna vitnaði Davíð Oddsson, forsætisráðherra, orðrétt í ummæli Ólafs Ragnar Grímssonar, núverandi forseta Íslands, frá árinu 1995 um nauðsyn þess að setja reglur eða jafnvel lög til að koma í veg fyrir óeðlileg valdatengsl og hringamyndun á sviði fjölmiðlunar. Sagðist Davíð gera orð Ólafs Ragnars að sínum og sagði að hefðu þau verið rétt árið 1995 væru þau enn réttari nú." (af mbl.is 24.05.2004)

Er Ólafur enn á því að honum beri að neita Alþingi um þessar takmarkanir á eignaraðild fjölmiðla?


mbl.is Ólafur Ragnar: Ótrúleg ósanngirni breskra stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaðan skiptir máli

Það sannast á Gordon Brown að einhliða aðgerðir geta lent á mönnunum sjálfum. Það að beita Kaupthing og Íslendinga hryðjuverkalögum var þáttur í falli RBS sem er stór lánveitandi Kaupthings. Kannski eiga hluthafar RBS kröfu á Brown?

Í dag er staða Íslands slík að hún má ekki við samstöðuleysi. Það er því mikilvægt að við styðjum þá sem eru í eldlínunni á meðan stórar ákvarðanir eru teknar til að bjarga því sem bjargað verður.

Nú reynir líka á að samfélagið sé heilt. Allir hafa lent í áfalli en mismiklu. Við verðum öll að styðja hvert annað og halda stillingu okkar og virðingu hvert fyrir öðru. Það er grundvöllur samfélagsins. Peningar eru gjald-miðill, en ekki upphaf og endir alls.


mbl.is Örlagaríkur dagur í breskri bankasögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að skerða eigur íslenska ríkisins?

Egill Helgason spurði réttmætra spurninga í viðtali við Jón Ásgeir Jóhannesson. Fortíðin er mál út af fyrir sig, en nú um helgina er Jón Ásgeir með Philip Green samstarfsmann sinn frá Arcadia ævintýrinu að "kaupa skuldir" Baugs.

Eins og Jón Ásgeir sagði réttilega í viðtalinu þá á sá fyrirtækið sem á skuldirnar. Í dag á íslenska ríkið skuldirnar og því þarf að passa það að láta þær af ekki af hendi á undirverði. Öruggt má telja að þessi skuldabréf eru með góðum veðum (kannski í Iceland) öfugt við peningamarkaðsbréfin illræmdu.

Ég trúi því að stjórnvöld skoði þetta með hagsmuni Íslands í huga.


mbl.is Samskipti Philips Green og Íslendinga endurvakin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxtalækkun - Tónlistarhús og gjaldeyriskostnaður í utanríkisráðuneytinu

Það er skynsamlegt að fara ekki í launahækkanir við þessar erfiðu aðstæður. Aðalatriðið er að sem allra flestir hafi vinnu og þeir sem missa vinnu fái vinnu sem allra fyrst á ný.

Vaxtalækkun hlýtur að vera framundan. Það er gott á þessu augnabliki að geta stórlækkað vexti en í Bandaríkjunum er lítið eftir að lækka þegar vextir eru 1,5% þar í landi. Ekki er úr miklu að spila þar. Á Íslandi eru þeir hins vegar gríðarháir eða heil 15,5% eða tíu sinnum vaxtastig USA.

Háir vextir dugðu þó lítið til að minnka eyðsluna og bruðlið sem varð okkur dýrkeypt en nú er brýnt að létta byrðarnar.  

Ríkið og sveitarfélögin verða nú að forgangsraða útgjöldum og forðast allt óþarfa bruðl sem hefur verið mikið á síðustu árum. Þetta verður ekki auðvelt en nú verðum við að vera skynsöm. Aðalatriðið er að fjölskyldurnar fái góða grunnþjónustu enda er fjölskylda hornsteinninn.

Þó ég hafi verið í tónlist um ævina sé ég enga glóru í að halda áfram með rískisrekið tónlistarhús á þessu augnabliki. Sjálfsagt þarf þó að koma því í fokhelt ástand.

Þá er það sannað fyrir mér að hið mikla net sendiráða sem Ísland hefur um heim allan er harla gagnlítið. Það kostar okkur dýran gjaldeyri og er því rétt að draga þar saman strax.

Utanríkisráðuneytið eyðir milljarði á mánuði og er mest af því gjaldeyrir sem nú er skammtaður fyrir mat og lyfjum.


mbl.is Endurskoðun kjarasamninga frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir stendur sig vel í erlendum fjölmiðlum

Það er eftir því tekið hve yfirvegaður Geir Haarde er í viðtölum sem birtast á öllum helstu sjónvarpsmiðlum Evrópu. Á SKY er fátt annað í fréttum og í dag voru viðtöl við Sunnlendinga eins og föður minn Jón Arnalds sem sagði einfaldlega "Bretar hjálpuðu okkur ekki. Af hverju ættum við nú að hjálpa þeim?". Allir voru sammála um að Brown hefði farið offari. Gordon Brown hefur farið offari í yfirlýsingum og margir eru farnir að sjá í gegnum þetta auma "Falklandsstríð" hans á hendur Íslendingum þar sem hryðjuverkalögum er misbeitt.

Geir er hógvær og jarðbundinn stjórnmálamaður sem svarar fréttamönnum af festu og yfirvegun. Sú ásýnd Íslands sem birtist í viðtölum við Geir var ekki ímynd ríkis sem væri ábyrgðarlaust heldur ábyrgt. Brown hinsvegar fór langt með að valda panikk sjálfur í Bretlandi

Margir horfa nú til Íslands og hafa sumir talið það vera kanarífuglinn í kolanámunni. Nú er það okkar að sýna það að við stöndumst áraunina. Nú þarf ríkisstjórnin að ná fullum tökum á atburðarrásinni sem á sér ekki hliðstæður í Íslandssögunni. Margt bendir til þess að það hefði mátt taka á þessu miklu fyrr.


mbl.is Brown gekk allt of langt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þýðir það að fela sig forsjá IMF?

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn sinnir vandamálum sem menn hafa ekki séð hjá ríkri þjóð eins og Íslandi. Hver verða skilyrði IMF fyrir lánveitingum? Vilhjálmur Egilsson hefur barist fyrir inngöngu í ESB. Nú sjá allir hvernig ESB virkar í lausfjárkreppu: Hver og einn hugsar um sig og enginn hjálpar öðrum. Beiðni Ítala um sameiginlegar varnir eru blásnar af borðinu þar sem Þýskaland slær skjaldborg um þjóð sína - líkt og Ísland gerir nú.

Það tekur langan tíma fyrir Ísland að komast um borð í ESB skútuna en það er ekkert skjól á þilfarinu þegar stormurinn geisar.

Nú vill Vilhjálmur að við förum í umsjá IMF. Hvað það þýðir veit ég ekki en yfirleitt hefur IMF tekið stjórnina og selt eigur þjóðanna og minnkað samfélagslega þjónustu íbúanna. Ekki er gott að fara úr öskunni í eldinn. Þá er betra að vera í öskunni og vera sjálfbjarga. 

Stjórnvöld eru að vinna að lántöku í Rússlandi og fleiri þjóðir hafa boðið aðstoð sína. Er það styrkleikamerki fyrir fámenna þjóð (sem kölluð hefur verið "stórasta þjóð í heimi") að senda svona misvísandi skilaboð út í heim??? Er ekki nær að við stöndum saman í þessu stríði sem síðustu sólarhringa fer að bera merki Kúbudeilunnar og Þorskastríðanna?

Það er ljóst að "glóbaliseringin" er á fallandi fæti þessa dagana og einangrun þjóða er í spilunum. Það er ekki einsdæmi hér á landi heldur er þetta rætt í Bandaríkjunum sem og í Evrópuríkjunum. Staðan er slæm enda búum við nú við lausafjárkreppu og gjaldmiðilskreppu. Það sem við þurfum allra síst er krónísk leiðtogakreppa í ofanálag þar sem hver höndin er upp á móti annari.

 


mbl.is Vill fá aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vafasöm aðgerð Breta

Margir erlendir sjómenn þurftu að kveðja Íslandsmið þegar við færðum út landhelgina. Þeir sem komu með herskip voru Bretar. Nú völdu þeir þann kostinn að beita Ísland hryðjuverkalögum, sennilegast til að slá sig til riddara í kvöldfréttunum. Tjónið verður illa bætt og bitnar harðast á lífeyrissjóðunum sem fjárfestu í Kaupþingi banka.

Ef eitthvað er lýðskrum hlýtur það að vera misneyting laga um hryðjuverk á friðsamri þjóð sem nú á í vök að verjast. Vinur er sá sem er vinur í raun.


mbl.is Mjög óvinveitt aðgerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfiðleikar og lífið framundan

Aðgerðir íslenska ríkisins eru snöggar og mjög öflugar eins og menn hafa séð í dag. Sú áætlun að verja Ísland virðist vera ganga upp. Hin leiðin að veðja lífeyrispeningum og skattleggja börn og barnabörn okkar var sem betur fer ekki farin.

Mörg fyrirtæki eiga eftir að fara í greiðsluþrot á næstunni, ekki síst skuldsettu yfirtökurnar. Lengi vel var ein ábatasamasta atvinnugreinin að kaupa og selja sömu fyrirtækin aftur og aftur með sífellt meiri skuldum. Nú er komið að gjalddaga.

Þetta ferli er sársaukafullt fyrir marga, en enn erfiðara er að vita af fólki sem nú hefur tapað sparnaði sínum. Allt þetta veldur því að þjóðin verður að fá fullvissu um að allt þetta mál verði rannsakað og tryggt sé að eigum sé ekki skotið undan. Það liggur í hlutarins eðli.

Við höfum orðið fyrir gjöreyðingarvopni sem sprakk í andlitið á okkur. Skuldsetningin og eignatengslin voru svo eldfim blanda að ein bilun fór með allt kerfið. Það hefði engu máli skipt hvort það spil hefði heitið "Glitnir" eða eitthvað annað.  

Lífið heldur samt áfram og ef einhver þjóð getur komist í gegn um þetta eru það Íslendingar. Nú er allra mikilvægast að tala við sína nánustu og vernda geðheilsuna. Allir Íslendingar hafa lent í áfalli og þurfa allir styrk og hlýju hver frá öðrum. Segja má að í dag sé dagur núll í nýju Íslandi sem þarf að fólkinu sínu að halda.

 


Mikilvæg yfirlýsing

Forsætisráðherra hefur með þessari yfirlýsingu tekið af öll tvímæli um vandamál Icesave.
Nú hljóta menn að sjá að ríkið stendur við sitt og fullveldi Íslands er í engri hættu.

Ætli verði ekki vatnaskil nú í dag?


mbl.is Eignir standi undir Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illindi og misræmi

Nú þegar Íslendingar þurfa stuðning annara ríkja sem mest er lítið um stuðning. Til hvers höfum við verið með sendiráð ef ekki til að undirbyggja öryggisnet? Ég ætla ekki að nefna "Öryggisráðið".

Geir H. Haarde fullyrti í gær að Ísland stæði við skuldbindingar sínar.
Gordon Brown segir eitthvað allt annað.

Þetta er mjög slæmt misræmi sem verður að skýra strax.


mbl.is Brown hótar aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð og Golíat

Davíð Oddsson er mikill leiðtogi og sem slíkur er hann umdeildur. Hann varaði við mörgu sem nú er komið á daginn. Undanfarið hefur staðið yfir orusta um Ísland. Bankaeigendur hafa eignast fyrirtækin, skuldir heimilanna, fjölmiðlana og skuldsett þjóðina. Davíð talar tæpitungulaust mannamál og hefur skýra sýn á stöðuna.

Það er með miklum ólíkindum hvað íslenskum bankaeigendum hefur tekist að fá stór lán. Tjónið sem skuldsetningin mikla hefur valdið þjóðinni er mikið. Margt saklaust fólk verður undir þegar skuldir bankanna brjóta yfirbygginguna í mola.

Nú er komið að skuldadögum.

Það er mikill sársauki um þessar mundir enda eru þetta miklar hamfarir. Það er þó miklu, miklu betra að þetta gangi hratt yfir heldur en að ríkið hefði reynt að tjasla upp á þetta með lífeyri almennings og skuldsetningu barna okkar. Línan var dregin í sandinn á skýran hátt eins og Davíð sýndi fram á.

Þrátt fyrir ofurefli tókst stjórnmálamönnum okkar að standast þá freistingu að "redda" Golíat.


mbl.is Ríkið borgi ekki skuldir óreiðumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næst versta staða en ekki sú versta

Það er dapurleg staða að fjármálakerfið sé komið upp á sker, en hafa ber í huga að hér ákvað ríkisstjórnin að hætta ekki lífeyri eða framtíð barna okkar í björgunarleiðangur sem betur fer.

Auðvitað er það hörmulegt að íslenskt fjármálakerfi skuli vera komið í þetta mikla klandur. En það er eins gott að menn lágmarki tjónið svo hægt sé að forðast þjóðargjaldþrot.

Íslenska "útrásin" er lítið annað en skuldsetning komin á gjalddaga.

Á sama tíma er fjármálakreppa um allan heim.

Það er áfall fyrir Ísland og Íslendinga að horfa upp á fjármálafyrirtækin í þessum vanda.
Það væri enn meira áfall ef við legðum lífeyrinn og skuldsettum börn okkar til að "bjarga" þeim sem hafa farið gáleysislega með fé.

Nú þarf að tryggja hag almennings og atvinnulífisins. Síðan þarf að fara yfir hvað fór úrskeiðis.

Ísland á framtíðina fyrir sér ef rétt er á spilunum haldið.


mbl.is Ný lög um fjármálamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningamarkaðsbréf

Eitt af erfiðu málunum á allra næstu dögum er staða peningamarkaðsbréfa en þau komu fyrir í fréttum í síðustu viku þegar sjóður 9 hjá Glitni varð fyrir áfalli vegna ónýtra lána.

Nú er ljóst að sparifjáreigendur, sveitarfélög, eldri borgarar og aðrir hafa sett peninga sína í þessi peningamarkaðsbréf í góðri trú. Ef það kemur upp úr dúrnum að þar sé mikið tap vegna fjármálastofnanna þarf að skoða það sérstaklega. Glitnir tók á sig helming af þeim 22 milljörðum sem voru í lánum til Stoða (FL). Kannski munu bankarnir taka á sig svipað hlutfall af þeim töpum sem verða. Þessu þarf að svara fljótt.

Þá vakna siðferðislegar spurningar um hvernig þessum sparifjármunum hefur verið ráðstafað ef þar er að verða tjón. Ljóst er að þetta sparnaðarform hefur verið kynnt af bönkunum sem örugg leið og ef annað kemur í ljós verður að bregðast við ef ekki á að fara illa hjá mörgum.

Þetta mál hlýtur nú þegar að vera til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu enda margir í mikilli óvissu.


mbl.is Verndum hagsmuni almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægur þáttur

Írar riðu á vaðið og tryggðu allar innistæður í bönkum sínum.  Þá lýsti Angela Merkel yfir ábyrð Þýska ríkisins á innistæðum í Þýskalandi. Nú hafa Danmörk og Ísland bæst í hópinn. Þessi ábyrgð er mikilvæg þegar óvissa er um eðlilega bankastarfssemi.

Eins og sagt hefur verið um helgina er hver þjóð að "hugsa um sig" eins og glöggt kom fram í uppskiptingu risabankans Fortis en þar var fjölþjóðlegur banki þjóðnýttur í einu landinu í óþökk hinna nú um helgina.

Nú vinna ríkisstjórnir í Evrópu að endurskipulagningu bankakerfisins enda ljóst að margþáttaðra aðgerða er þörf í flestum löndum. Hér á Íslandi eins og annars staðar er mikilvægt að samstaða og skýr sameiginleg sýn sé meðal stjórnmálamanna, bankamanna og aðila vinnumarkaðarins. Sú yfirlýsing að "innistæður einstaklinga og fyrirtækja séu tryggðar að fullu"  er stór yfirlýsing af hálfu ríkisins og mikilvæg.  


mbl.is Árétting frá ríkisstjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saving Iceland

Margir bíða eftir útspili ríkisstjórnarinnar og annara hagsmunaaðila. Flestum er nú ljóst að málið er stórt og þolir enga bið. Samstaða og áhersla á aðalatriðin skiptir miklu. En ekki síður að útspilið sé tromp.

Talað er um að "krúttkynslóðin" sem stundum er kölluð "I" kynslóðin (i-pod, i-phone, I, me, mine) víki fyrir praktískari sjónarmiðum. Dr. Gunni spáir endurvakningu pönksins.

Hvernig sem fer er líklegt að nú verði vatnaskil. Græðgin víkji til hliðar og önnur gildi taki við. Undirstöður taki við af of stórri yfirbyggingu. Samheldni taki við af flokkadrætti. 

Kannski kominn tími til?    


mbl.is Fjölgar í Ráðherrabústaðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóri pakkinn og ESB aðild

Nú reynir á samstöðu þeirra sem eru að vinna að stóra pakkanum sem á að afstýra stóráföllum. Þegar á reynir þjappa menn sér saman og vinna sig út úr vandanum. Nú er ekki rétti tíminn til að kenna hver öðrum um heldur standa saman.

Það er morgunljóst að mikil áhætta hefur verið tekin í útlánum og "útrás" en nú þarf að vinna að lausnum sem tryggja hag almennings sem best.

Hér vegur þyngst skammtímafjármögnun sem sennilega er hærri en 1.000 milljarðar króna og svo þarf ríkisstjórnin að taka af allan vafa að sparifjáreigendur séu með allar innistæður öruggar í íslenskum bönkum.

Langtímastefna í myntmálum verður líka að liggja fyrir. ESB aðild finnst mér ekki eftirsóknarverður kostur, en ef enginn annar kostur er í stöðunni ber okkur að skoða aðild. ESB umræðan má amk. ekki spilla fyrir lausafjárútspilinu sem þarf að koma núna. Líklegast er þó að ESB aðild skili engu, enda uppfyllir Ísland ekki Maastricht skilyrðin. Vandinn verður ekki leystur með umsókn.

Flokkspólítík og persónulegur ágreiningur eiga ekki heima á þessari ögurstundu. Nú þarf samstöðu semaldrei fyrr enda eru þetta miklar hamfarir. Það er nægur tími síðar til að fara yfir það sem betur hefði mátt fara en um þessa helgi verða allir sem að málinu koma að vera Íslendingar fyrst og fremst.

 


Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Stór orð bera mikla ábyrgð. Það er mikill ábyrgðarhluti af hálfu fræðimanns í ríkisháskóla Íslands að fullyrða það að "við blasi...að bönkunum verði lokað". Bankarnir eru með hundruði milljarða af eigin fé og þrátt fyrir fyrirséð útlánatöp eru sterkir varasjóðir til reiðu.

Dósent við Háskóla Ísland hlýtur að þekkja söguna nógu vel til að vita það að ekkert er varasamara en að æsa upp ótta almennings við viðsjárverðar aðstæður.

Það er ástæða til að rifja upp einræður Starkaðar:

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti,
sem brastvið biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.

En örlætið glatar frændsemd og fylgd.
Fagna skal hóglega kynni og vinum.
Svo stopult er margt í venzlum og vild,
- vinnirðu einn, þá týnirðu hinum.
Hugsirðu djúpt, sé mund þín mild
og mælist þér bezt, verða aðrir hljóðir. -
Öfund og bróðerni eru skyld;
-- ótti er virðingar faðir og móðir.

" Því veldur vor fátækt, oss vantar að sjá,
hvað vísindi ynnu hér, þjóðleg og há
sjá náttúru landsins vors náminu háða
sjá not þeirrar menntar, sem oss væri hent.
Og hugmyndir vantar.- Með eins manns anda
ávinnst oft verkið þúsund handa.
Skal gabba þann kraft ? Er ei grátlegt að sjá
göfuga hugsjón smáða.-
sjá heilbrigða tréð vera höggið og brennt
en hirt það visna ? Það þekkjum vér tvennt.-
Að virða listir og framtak er fyrsta,
sem fólkinu á Íslandi skyldi kennt.
Með vísindum alþjóð eflist til dáða
það æðra, því lægra skal ráða.-

Við óskum hér bóta við aldanna mót,
en allt þó með gát og á þjóðlegri rót:
með rækt við fortíð og fótsporin þungu,
sem fyrst hafa strítt yfir veglaust og grýtt.
Vér eigum sjálfir á eftir að dæmast
af oss skulu forfeður heiðrast og sæmast,-
sem studdu á lífsins leið vorn fót,
sem ljóðin við vöggurnar sungu.-
Það fagra sem var skal ei lastað og lýtt
en lyft upp í framför, hafið og prýtt.
Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja,
án fræðslu þess liðna sést ei hvað er nýtt.
Vort land það á eldforna lifandi tungu
hér lifi það gamla í þeim ungu. "


mbl.is Fjármálakerfið í greiðsluþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband