3.9.2011 | 21:26
Saga úr ferðaþjónustunni
Á níunda áratugnum var unnið að smíði flugmóðurskips sem var nefnt Varyag (Варяг) af Sovétmönnum. Árinu eftir fall kommúnismans í Sovétríkjunum var smíði þess hætt.
Sex árum síðar var það keypt á uppboði fyrir tvo milljarða króna af einkafyrirtækinu "Chong Lot Tourist and Amusement Agency" sem sagði tilgang kaupanna vera að setja á fót fljótandi ferðamannaparadís fyrir utan Macau og ættu að vera 600 herbergi í skipinu.
Árið 2005 er skipið komið í þurrkví og tekið í gegn. Fer litlum sögum af skipinu þar til í síðasta mánuði þegar þvi er siglt á haf út; en þá sem fullbúið herskip og jafnframt fyrsta flugmóðurskip Kína.
22.8.2011 | 22:57
Framsókn Sigmundar - þriðji flokkur Guðmundar
Guðmundur Steingrímsson mun á morgun kynna stofnun nýs flokks en eitthvað lak stofnun hans út í dag. Guðmundur hefur verið í Samfylkingunni og Framsóknarflokknum (tvisvar) og nú stofnar hann þriðja flokkinn.
Það vekur athygli að það virðist vera áhugi Guðmundur á inngöngu Íslands í ESB sem knýr hann áfram til að stofna sérstakan stjórnmálaflokk. Þó er það svo að eitt stjórnmálaaflið; Samfylkingin hefur ESB inngöngu á oddinum. Það er því spurning hvort Guðmundur þurfi að stofna þriðja flokkinn. Hefði ekki verið nær að snúa aftur?
Tímasetningin er líka sérstök. Aldrei hafa verið meiri efasemdir um ESB og evruna en nú. Ekki síst í Evrópu sjálfri. Og hafa þó efasemdirnar verið miklar hjá mörgum.
Guðmundur er kominn af þjóðþekktum framsóknarmönnum og man ég vel kynni mín af föður Guðmundar honum Steingrími Hermannssyni, ekki síst í kringum stofnun og upphaf Heimssýnar en við sátum báðir í fyrstu stjórn þess félags sem nú mæðir mikið á. Það var engin skammsýni að stofna það.
Mér finnst Framsókn undir stjórn Sigmundar Davíðs vera framsýn: Það er fleiri og betri möguleikar fyrir Ísland en að ganga í ESB.
Ekki líklegt til að veikja Framsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.12.2010 | 23:23
Góð og mikilvæg staðfesting
Neyðarlögin voru nauðsynleg og hafa nú hlotið staðfestingu ESA. Þar með er óvissu eytt.
Sagan mun líka dæma þá ákvörðun vel að ríkið skyldi ekki dæla inn þúsund milljörðum í bankana í október 2008.
Þá stóð til að setja um 500 milljarða af erlendum eignum lífeyrissjóðana með.
Auk þess var kvartað yfir því að lánalínur Seðlabankans væru ekki nýttar í sama tilgangi sem skyldi.
Það má þakka Geir Haarde forsætisráðherra og bankastjórn Seðlabankans undir stjórn Davíðs Oddssonar að ekki fór verr. Gott er að menn reyndu ekki að "bjarga málum" með vonlausum björgunarpökkum í miðju hruninu.
Hér er svo staðfest að neyðarlögin standast skoðun. Án þeirra hefði Ísland orðið óstarfhæft.
Að þessu öllu ofangreindu er Ísland betur statt en Írland.
Neyðarlögin ekki brot á EES-samningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.12.2010 | 20:18
Breytt um kúrs
Skuldir Árborgar lækka í fyrsta sinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.11.2010 | 13:16
Er þjóðin óhæf?
Einn af frambjóðendum til stjórnlagaþings er Jónas Kristjánsson pistlahöfundur. Niðurstaða hans í dag er sú að íslenska þjóðin sé óhæf um að stjórna sér. Máli sínu til stuðnings bendir hann á að innan við helmingur á kjörskrá skuli kjósa. Sögulega lítil þáttaka er honum greinileg vonbrigði en getur verið að þjóðin telji mikilvægari verkefni og brýnni en að taka þátt í þessari tilraun? Ég leyfi mér að treysta þjóðinni til að meta það sjálf hvenær hún kýs að fara á kjörstað. Virðum rétt fólks til að kjósa og líka til að kjósa ekki.
Íslenska þjóðin hefur sýnt það að henni er ekki sama eins og þegar 62,72% kusu í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samningana. Þáttaka undir 50% í stjórnlagaþingi þar sem fólk var hvatt til þáttöku hlýtur því að vera mikið umhugsunarefni.
Víða um heim er verið að kljást við afleiðingar fjármálahruns. Þar leita menn oft í undirstöður samfélagsins og vilja margir treysta þær stoðir frekar en að veikja þær. Skoða hvað fór úrskeiðis í framkvæmd frekar en að hrófla við þeim sáttmálum sem samfélagið byggir á.
Leyfi mér að endurbirta pistil Jónasar Kristjánssonar frá því í dag hér að neðan:
"Þjóðin er óhæf"
"Öll saga lýðveldisins sýnir, að Íslendingar eru óhæfir um að stjórna sér. Hrunið er eðlileg niðurstaða samfélags, þar sem fífl kjósa fífl til að auðvelda fíflum að stela peningum. Ekki bætir úr skák, þegar þjóðin fær í fyrsta sinn tækifæri til að kjósa persónur framhjá fjórflokknum. Þá nennir neyzlufólk bara alls ekki á kjörstað. Unga fólkið liggur uppi í sófa og étur popp. Innan við helmingur á kjörskrá nennir að uppfylla skyldur borgara í lýðræðisþjóðfélagi. Því skulum við leita á náðir Evrópu og evru. Þeim mun fyrr náum við þeirri farsælli stöðu að geta látið aðra um að stjórna okkur."
(tekið af jonas.is)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
2.10.2010 | 14:51
Niðurskurður og skurðsstofur
Sú áhersla að skera einna mest niður hjá tveimur kragasjúkrahúsunum þarf skoðunar við. Við fyrstu sýn virðist blasa við að skurðsstofur verði aflagðar á þeim sjúkrahúsum sem hafa frekar lágan kostnað. Þetta er reyndar umdeild stefna. Þess vegna fagna ég þessari yfirlýsingu Guðbjarts Hannessonar. Miðað við þær tölur sem ég hef séð er veginn launakostaður Heilbrigðisstofnunar Suðurlands mun lægri en Landspítalans. Sama virðist vera með kostnað per aðgerð. Reyndar hefur verið sýnt fram á að hér geti munað verulegum upphæðum og þá er spurningin hvort hér sé um sparnað að ræða ef sjúklingar þurfa að sækja þjónustu í einingu sem er dýrari í rekstri. Sama á sjálfsagt við um Suðurnesin og Suðurland. Samtök Sunnlenskra Sveitarfélaga hafa bent á þennan samanburð með ítarlegum hætti.
Gott væri að fá að vita hverjir unnu þær forsendur sem liggja til grundvallar þegar ákveðið er að skera niður um tugi prósenta á landsbyggðinni en krónutala höfuðborgarinnar er nær óbreytt. Inn í forsendurnar kann að vanta ólíkan launakostnað og svo samfélagslegan kostnað við að aka á milli staða með sjúklinga og aðra þætti. Þetta á við um fleiri málaflokka og er ekki ólíklegt að viðhorf til fangelsins á Hólmsheiði mótist af viðhorfi höfuðborgarinnar. Ég treysti því að Guðbjartur kynni sér málið vel og fari yfir forsendurnar með forstjórum kragasjúkrahúsanna á þeim vikum sem enn eru til stefnu.
Mun endurmeta tillögurnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.10.2010 kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.9.2010 | 17:44
Ekki botnað enn
Þessar tölur sýna því miður að botninum er ekki náð. Samdrátturinn á sér stað á sama tíma og ríkið og sveitarfélögin eru rekin með miklum halla. Nú liggur fyrir að opinberir aðilar verða að skera enn frekar niður og ekki verður lengur treystandi á "hagvöxt" sem byggir á hallarekstri.
Nú vona ég að sem flestir sjái hvað það er lífnauðsynlegt fyrir Ísland að auka framleiðslu og framleiðni. Hallarekstur eykur ekki þjóðarframleiðslu nema í örstutta stund. Fjármagnskostnaðurinn sem hallanum fylgir minnkar frekar hagvöxt og hagsæld.
Auðlindir, menntun og lágt gengi krónunnar ætti að mynda kjöraðstæður til uppbyggingar á útflutningsvörum. Vonandi verður hægt að fara í sókn á þessum sviðum fljótt.
3,1% samdráttur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.8.2010 | 21:35
Verkin framundan
Í dag var samþykkt tillaga okkar fulltrúa D-lista um að ráða Ástu Stefánsdóttur sem framkvæmdastjóra Sveitarfélagsins Árborgar. Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Þótt margir mjög hæfir umsækjendur hafi boðið fram krafta sína er þessi ráðning um margt jákvæð. Við munum nýta þau tækifæri sem gefast til að spara í yfirstjórn sveitarfélagsins eins og gert var strax að afloknum kosningum. Þá lögðum við niður 3 stöðugildi og breyttum samþykktum sveitarfélagsins þannig að bæjarfulltrúum verður fækkað úr 9 í 7. Þá breyttum við starfsheiti bæjarstjóra í framkvæmdastjóra í samþykktum Árborgar en það er hið eiginlega heiti æðsta embættismanns sveitarfélaga samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Þótt heimilt sé að kalla framkvæmdastjórann bæjarstjóra eða sveitarstjóra er það í anda aðhalds að ráða sveitarfélaginu framkvæmdastjóra. Við gerðum okkur far um að hafa ráðningarferlið sem best og sýnist mér að það hafi tekist vel.
Nú eru krefjandi verkefni framundan þar sem við þurfum að takast á við fjárhagsvanda sveitarfélagsins og á sama tíma að horfa á þau sóknarfæri sem hjá sveitarfélaginu felast. Við erum með frábæra staðsetningu, vatnsmestu á landsins og svo erum við með samöngubætur í farvatninu eins og tvöföldun Suðurlandsvegar og Suðurstrandarveg. Grunnurinn að sókninn verður að vera byggður á því að reksturinn skili einhverju af sér í að greiða af fjárfestingarskuldum. Án þess er ekki hægt að gera neitt með góðri samvisku. Ráðning Ástu Stefánsdóttur er skynsamleg til þess að unnt sé að takast á við þessi verkefni af festu strax. D-listinn fékk yfir 50% greiddra atkvæða til þess að breyta áherslum og ná tökum á hallarekstrinum. Það er fyrsta verkefnið og það munum við gera.
22.7.2010 | 21:41
Ríkið og bóndinn
Ríkið hefur mikið vald og getur lagt skatt á nánast hvað sem er hvort sem það er kvikt eða kjurt. Á síðustu öld voru heilu þjóðirnar undir kerfi sem byggðist á allsherjar ríkis-stjórn og alræði. Eignarréttur einstaklingsins var upprættur og ríkið átti að sjá um að allir fengju sitt. Margir trúðu á þetta fyrirkomulag og töldu að kommúnisminn og miðstýrð áætlanagerð myndi sjá til þess að vel væri farið með hráefni og auðlindir. Föt voru einsleit og átti það að draga úr sóun og svona má lengi telja. Nú er það svo að stærsti orkunotandi veraldar Kína er með miðstýrt hagkerfi en þar er talið að sé að finna 16 af 20 menguðustu borgum veraldar. Flestar hinar eru í fyrrum sovét-ríkjunum:
http://www.worstpolluted.org/
Tökum svo dæmið um íslenska bóndann. Allt frá landnámi voru lönd og hlunnindi landsins í einkaeign eins og lesa má um í Landnámu og víðar. Þjóðveldið var reyndar þannig samansett að ríkisrekstur var enginn og fáir eru þeir sem vilja ganga svo langt. Það sem vert er þó að velta fyrir sér er hvernig íslenski bóndinn lék auðlindir landsins miðað við alræði ríkisins í austri. Bóndinn nýtti náttúruna og nytjar hennar en gekk ekki svo nærri henni að búskapurinn gengi ekki. Bóndinn var að gæta sinna hagsmuna þegar hann gætti þess að bústofninn héldi velli. Æðarvarp er blómlegt þar sem bóndinn býr. Ríkið er þrátt fyrir allt langt frá því að vera óskeikult og margt hefur verið mengað í krafti ríkisins og nafni þjóðarhags. Þjóðnýting bændabýla í Zimbabwe leiddi til hörmunga en ekki þess jöfnuðar sem lofað var. Aralvatn og Tjernóbíl eru minnismerki um áætlanabúskap sem brást. Þrátt fyrir hörmungar í bankarekstri útrásarmanna er mikilvægt að við hlaupum ekki til og trúum því í blindni að "ríkið" komi öllu til bjargar. Öfgar eru engin lausn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.7.2010 | 15:37
Af hverju ekki ESB?
Ég hef lengi haft miklar efasemdir um að Ísland eigi erindi í ESB og tók þátt í stofnun Heimssýnar í júní 2002 ásamt fleira góðu fólki. Sjálfstæðið hefur reynst okkur vel og sem sjálfstæð þjóð höfum við tekið þátt í alþjóðasamvinnu og gengið lengst í samningnum um evrópska efnahagssvæðið (EES) eins og menn þekkja.
Eitt af vandamálunum við ESB er að það er síbreytilegt og stækkar bæði að umfangi og innihaldi. Eins og oft vill verða þegar byggt er á þenslu og vexti er hætt við að undirstöðurnar séu óstöðugar. Nú hefur komið fram það sem menn óttuðust að ríkin sem standa að ESB eru of ólík til að geta staðið með góðu móti að sameiginlegri mynt. Skuldir einkageirans hafa nú verið fluttar í allmiklum mæli yfir á ríkin sjálf sem eiga erfitt með að standa undir skuldunum. Auk þess er undirliggjandi vandi fólginn í því að barneignum hefur fækkað mikið og eru framtíðarhorfur því dekkri en Íslendinga þó skammtímavandi okkars sé mikill.
Nú stendur yfir umsóknarferli Íslands í sambandið og hefur umsóknin orðið til þess að ríkisstjórnin hefur stöðvað gerð nýrra milliríkjasamninga. Nægir hér að nefna fríverslun við Kínverja. Þá hefur mikilll og einbeittur áhugi á að semja um Icesave tengst ESB umsókninni (og AGS líka) þrátt fyrir ítrekaða afneitun sumra um málið. Þetta hefur gert ESB inngöngu ómögulega fyrir þorra þjóðarinnar og þá er komið að því hvort ekki sé ábyrgðarhluti að stunda það sem hafa kalla "bjölluat" það er að segja að sækja um án umboðs og án stuðnigs þings og þjóðar. Ég er viss um að þingmenn hinna þjóðanna 27 spyrja sig þessara spurninga þegar þeir vinna úr gögnum sem varða umsóknina. Það er því eðlilegt að þingið okkar sé spurt hvort rétt sé að halda þessu áfram.
30.6.2010 | 13:34
Þessi tilmæli eru talsverð nýmæli
Þrískipting ríkisvaldsins er einn af hornsteinum þjóðfélagsins. Dómur Hæstaréttar sem tekur á lögum 28/2001 um vexti og verðtryggingu virðist skýr. Ekkert er kveðið á um að breyta beri eða breyta megi vöxtum. Vilji lánveitendur gera slíka kröfu hlýtur að þurfa að höfða mál til að fá hana samþykkta. Þangað til gilda lögin eins og þau eru í samræmi við dóm Hæstaréttar. Samningsákvæðið um gengistryggingu fellur brott en samningurinn er ekki ógildur.
Lög og samningar verður að virða. Ekki síst af stjórnvöldum. Dóma Hæstaréttar ber að virða og ég man hreint ekki eftir að stjórnvöld hafi áður beint tilmælum til fyrirtækja eins og hér er gert. Kannski eigum við eftir að sjá fleiri tilmæli um að breyta samningum einhliða?
Hingað til hefur það verið virt að samninga á að túlka neytanda í vil ef einhver vafi er um niðurstöðuna. Lög um neytendavernd eru dæmi um slíkt Í þessu tilfelli er niðurstaðan skýr þar sem ekkert er tekið á því að breyta vöxtunum. Þeir hljóta því að haldast samkvæmt samningum. Kannski eru menn að bera fyrir sig neyðarrétt til að verja fjármálastofnanir?
Þetta eru að minnsta kosti nýmæli.
Miða við lægstu vexti á hverjum tíma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.6.2010 | 21:32
Tímanna tákn
Vantraust á stjórnmálunum getur af sér nýjar leiðir bæði varðandi framkvæmdavaldið (ríkið) og bæjarstjórnir. Það að vinna þvert á flokkslínur, nota fólk sem ekki er í stjórnmálum og hleypa íbúum að ákvörðunum eru allt meðul sem kallað er eftir.
Það kemur því ekki á óvart að 80% styðji utanþingsráðherra. Þessi könnun er reyndar alveg í takt við þá könnun sem gerð var á Akureyri rétt fyrir kosningar en þar kom fram að 83% vildu ópólítískan bæjarstjóra þar á bæ. Stutt er síðan þessu var alveg öfugt farið en nú þarf að byggja upp traust og það þarf að hlusta á fólkið í landinu.
Meirihluti vill utanþingsráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.5.2010 | 07:38
Álögur og gjöld
Bæjarsjóðir hafa verið með gott lánstraust enda gátu lánastofnanir treyst því að ef illa færi væri alltaf hægt að hækka álögur á íbúana. Nú er komið fram raunverulegt dæmi um hvernig hlutirnir geta farið á illa.
Það sem verra er; þetta gerist á "versta tíma".
Skattar, lán og nauðsynjar hafa snarhækkað á sama tíma og minna er í buddunni. Sveitarfélög og ríkisvaldið geta ekki gengið endalaust í sama vasann enda löngu búið að rástafa krónunni. Af þessum sökum eiga bæjar- og borgarfulltrúar að hafa það markmið að lágmarka álögur á íbúana og með það markmið að leiðarljósi verða þeir að forðast óþarfa og bruðl.
Á þetta leggjum við áherslu sem skipum D-listann í Árborg. Við viljum byrja á sparnaði hjá okkur sjálfum og fækka bæjarfulltrúum og minnka kostnað í stjórnkerfinu. Þannig fáum við almenna starfsmenn og íbúa betur með okkur í að takast á við verkefnin.
Sú leið að bæta lausafjárstöðuna með hörðum innheimtuaðgerðum kann að skila krónum í kassann í skamma stund en á erfiðum tímum þarf að sýna nærgætni og umburðarlyndi gagnvart þeim sem berjast í bökkum. Þegar við það bætist að sveitarfélag sé með staðfest íslandsmet í fasteignagjöldum er vert að fara varlega. Þess vegna viljum við breyta verkferlum í innheimtu hjá Árborg og höfum boðað að samningur við Intrum verði tekinn upp.
Byrjum á réttum enda - þannig nást markmiðin sem við þurfum að ná.
Álag á íbúa Álftaness fram yfir árið 2015 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.5.2010 | 16:32
Bruðlið burt!
Sveitarfélögin fóru í stórfelldar framkvæmdir og mikla skuldsetningu á uppgangsárunum. Þau voru ekki síður "2007" en fyrirtækin og heimilin.
Nú þegar tekjur lækka standa skuldirnar eftir. Það er því óhjákvæmilegt fyrir bæjarfélög að fara sem allra best með fé. - Gæluverkefni verða að heyra sögunni til.
Kostnaður við skólabyggingar hefur verið gríðarlegur en nú er komið að því að nota það sem best sem til er og huga betur að innra starfi skólanna.
Við sem skipum D-listann í Árborg viljum fækka bæjarfulltrúum úr 9 í 7, lækka skrifstofukostnað, blása af vanhugsaðar framkvæmdir og með þessu getum við lækkað álögur.
Í dag er útsvarið í hámarki í Árborg og fasteignagjöldin hæst yfir landið. Þetta teljum við óásættanlegt enda nóg lagt á heimili og fyrirtæki með sköttum ríkisins og vaxtakostnaði lánastofnanna.
Á morgunn er valið einfalt: X við V, S og B er trygging fyrir áframhaldandi stefnu. X merkt við D er ávísun á breytingar.
Margir enn óákveðnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.5.2010 | 16:01
Stóru litlu málin
"Litlu málin" skipta miklu máli; ekki bara fyrir kosningar heldur ekki síður eftir kosningar. D-listinn í Árborg leggur til nokkur einföld mál sem ég vil nefna hér sem dæmi:
1) Bæjarfulltrúum verði fækkað úr 9 í 7
2) Bæjarstjórastaðan verði auglýst og launin lækkuð verulega
3) Bæjarfélagið hætti að nota Intrum til að innheimta leikskólagjöld og fasteignagjöld
4) Árborg glati íslandsmeti sínu í háum fasteignagjöldum (sjá www.byggdastofnun.is)
5) Hætt verði við gæluverkefni svo unnt sé að nýta þau 65 leikskólapláss sem hafa verið ónotuð
Öll þessi mál skipta máli.
Hér er hægt að gera mun betur.
25.5.2010 | 14:01
Þurfum við svona mörg ráðhús?
Ekki veit ég hvað mörg ráðhús eru á Íslandi en þeim hefur fjölgað ört á síðustu árum. Bæjarstjórar hafa verið á góðum launum og fjölmargir starfa við stjórnun. Þegar nú er hart í ári þurfum við að skoða hvar við getum sparað án þess að það bitni á þeirri þjónustu sem raunverulega er veitt. Sameiningar sveitarfélaga eru ein leið, samvinna önnur og svo þurfum við öll að endurskoða hvað við erum að leggja mikið í yfirstjórn.
D-listinn í Árborg leggur til eftirfarandi:
a) Auglýst verði eftir bæjarstjóra á lægri launum en verið hefur
b) Bæjarfulltrúum verði fækkað úr 9 í 7
c) Boðleiðir verði styttar
d) Allir bæjarfulltrúar fái hlutverk hvort sem þeir eru í "minnihluta" eða "meirihluta"
Með þessu viljum við sýna gott fordæmi í verki. Með því að taka til í okkar nánasta umhverfi getum við betur virkjað aðra.
Ég er viss um það að þetta má skoða í öllum sveitarfélögum.
21.5.2010 | 23:00
Treystum fólki
Vantraust er eins og eitur sem smitar út frá sér. Besti flokkurinn segist vilja treysta starfsfólki borgarinanr. Það er jákvætt viðhorf.
Ef stjórnmálamenn treysta fólkinu er líklegra að fólk treysti stjórnmálamönnum. Traust elur af sér traust og öfugt.
Það er þörf á því að komast upp úr vítahring vantrausts og vanvirðingar sem hefur heltekið þjóðfélagið.
Nú er eftirspurn eftir jákvæðu viðhorfi og offramboð á neikvæðni.
21.5.2010 | 07:55
Af hverju ekki grenndarkynningu á sorphleðslusvæði?
Á tímum þegar mikið er talað um lýðræði og umhverfismál er afar sérkennilegt að þrír stjórnmálaflokkar skuli hafna grenndarkynningu á sorphleðslusvæði sem áformað er að reka í miðju fjölmennasta sveitarfélagsins á Suðurlandi.
Hér á að aka með sorp af öllu suðurlandi og stafla því undir berum himni. Á tímum þegar garðhýsi fara í grenndarkynningu er með ólíkindum að tillaga um grenndarkynningu um svona umfangsmikla starfssemi sé hafnað. Í staðinn er talað um svæðið sem "umhleðslumiðstöð" á gámasvæði í Árborg.
Nú hafa íbúar í nágrenni svæðisins uppgötvað hvað er að gerast og hafa skrifað opið bréf til bæjarstjórnarinnar. Þetta mál hefur ekkert með flokkspólítík að gera enda fólk úr öllum flokkum sem hefur gagnrýnt málið. Tímasetningin rétt fyrir kosningar virðist hins vegar vera til þess fallin að keyra málið í gegn með hraði svo ekki sé hægt að hætta við. Þessi vinnubrögð eru ekki lýðræðisleg eða nokkrum til sóma.
Hér er svo tillaga okkar bæjarfulltrúa D-listans og afdrif hennar á síðasta bæjarstjórnarfundi:
"Bæjarstjórn samþykkir að láta fara fram grenndarkynningu á umhleðslustöð fyrir sorp sem fyrirhuguð er við gámasvæðið."
Greinargerð:
Umhleðslustöð sorps á vegum Sorpstöðvar Suðurlands er áformuð í miðju sveitarfélaginu og er ekki gert ráð fyrir þaki á starfssemina. Árborg er mesta þéttbýlissvæði á suðurlandi og því þarf að vanda vel til. Þar sem hér er um að ræða atriði sem varða umhverfismál íbúa er rétt að láta fara fram grenndarkynningu á verkefninu.
Gert var fundarhlé.
Tillagan var borin undir atkvæði og felld með fimm atkvæðum gegn atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista.